Framkvæmdir og endurbætur 2024

Framkvæmdir ársins 2024 voru af ýmsum toga og meira í þá átt sem við almennt viljum sjá, að orka og fjármagn fari í uppbyggingu og endurbætur frekar en endurlífgun og björgun grass og gróðurs eins og árið 2023 ýtti okkur út í sælla minninga.

Vetrarverkin og undirbúningur fyrir næsta sumar hefst almennt á haustmánuðum þegar vallarstjóri og hans frábæra fólk fer að snúa sér að þeim verkefnum sem ávallt eru á dagskrá eins og viðhald á vatnskerfi/vökvunarkerfi og jarðvegsvinna fær pláss ef eitthvað er á döfinni.

Í lok árs 2023 hófust því framkvæmdir fyrir sumarið 2024 og þar voru stærstu verkefnin vinnu við stækkun á teig 58 á 2. braut og ákveðið var að endurmóta alveg fremstu teiga á 12. braut og því fór töluverð vinna í gang á þessum svæðum svo það yrði tilbúið sem fyrst til notkunar þegar golftímabilið hæfast að nýju.
Önnur verkefni sem tóku nokkuð til sín svo um veturinn var gröftur fyrir sökkul undir mastur frá Íslandsmöstrum sem samið var um að reist yrði við æfingasvæðið og við nýttum tækifærið og grófum fyrir viðbótarbásum við hlið núverandi æfingasvæðis samhliða þessari vinnu.

 

Það er ekki hefðbundið að við séum í steypuvinnu og hvað þá yfir vetrartímann en steyptur var sökkull undir mastrið fyrir Íslandsmastur og steypt var einnig undir viðbótarstækkun á æfingasvæðisbásum. Að öðru leiti snerist vinna vallarstarfsmanna um snjómokstur 🙂 og að halda aðgengi að svæðinu góðu fyrir jólahlaðborð og veislur.

2024

Janúar

Dagarnir snerust áfram að mestu um snjómokstur og að halda svæðinu opnu. Þessi árstími nýtist oft best til innivinnu og hér eru margir starsmenn í sínum sumarfríum en ákveðið var að fara í töluverðar endurbætur á starfsmannaaðstöðu vallarstarfsmanna og fól það aðalega í sér endurnýjun á salernis aðstöðu, eldhúsi og kaffiaðstöðu. Var sú aðstaða alveg tekin í gegn og endurbætt að öllu leiti sem var orðið löngu tímabært. Í raun hefði verið best að byggja við húsnæðið til að slá á allar gunnþarfir komandi ára með fjölgun starfsfólks í huga en til að halda niðri kostnaði var ákveðið að breyta núverandi aðstöðu þannig að skrifstofa vallarstjóra var minnkuð og það skapaði ágætt svigrúm til að láta þessar framkvæmdir ganga upp.

Febrúar

Áfram innivinna í endurbótum á kaffi og salernisastöðu starfsmanna ásamt hefðbundinni viðhaldsvinnu á vinnuvélum og útbúnaði sem settur er upp á vorin.

Mars 

Vinna við aðstöðu starfsmanna kláraðist um miðjan mars og um það leiti sneru okkar góða næstum heilsársstarfsmenn Marzena, Patryk og Grzegorz aftur í hópinn eftir vetrarleyfi og hægt var að hefja undirbúningsvinnu við opnun vallarins.

Ákveðið var að fara í framkvæmdir á æfingasvæðinu. Keypt var boltahreinsivél og bolta týnslu vélmenni (róbót) sem var liður í að fækka vinnustundum starfsmanna við boltatýnslu sem er verulega tímafrekt undir því álagi sem almennt er á æfingasvæðinu. Í kringum þessa vél og róbót, þurfti að smíða gryfju og húsnæði.  Mikill kraftur var settur í þetta mannvirki sem þurfti að vera klárt áður en sumarið færi á fullt. Grafið,var fyrir sökkli, slegið upp og steyptar undirstöður og svo reist glæsilegt hús á ofurhraða. Frá húsinu var svo tenging (blástursleið) með hreina golfbolta yfir í núverandi boltavél og svæðið því betur undirbúið undir mikla umferð, boltar hreinir og lager góður og ólíklegt að einhver kæmi að tómri boltavél hvenær sem er ársins.  Frábær framkvæmd sem ætti að nýtast okkar vel í komandi framtíð.

 

Apríl – Maí

Vinna við 12. teig, tyrfing og frágangur fór á fullt og vinna við að kurla gróður virtist engan enda ætla að taka en mikið hafði fallið til af klipptum trjágreinum eftir Heimi Sigurðsson sem sinnt hefur því verki af mikilli aðlúð og dugnaði. Endurmótun bunkera var hluti af síðustu verfefnunum fyrir sumarið og skipt var út sandi í bunkerum 3-4-9.

Samhliða uppsteypu á húsi undir boltavél og jarðvinnu þar var ákveðið að stækka þurfti bílastæði á vallarsvæðinu og því var ráðist í það verkefni að fjarlægja hól eða mön fyrir aftan æfingasvæði og útbúa þar stæði sem átti eftir að nýtast gífurlega vel og taka betur við því álagi sem hér er á sumrin auk þess sem það létti á aðgengi að æfingasvæði yfir vetrartímann.

 

Þegar nær dró opnun, snerist vinna að frágangi á sárum í kringum verkefni vetrarins og almenn snyrtingu á svæðinu. Þegar frost fer svo úr jörðu hefst völtun á brautum sem er tímafrek aðgerð enda svæðið stórt og viðkvæmt. Þegar sól hækkar svo enn frekar á lofti og líða fer að maí er starf vallarstarfsmanna mikið til komið í rútínu við slátt og almenna umhirðu og því gott að eiga ekki mörg smá verkefni eftir út um allt sem almennt er raunin nema veðrið sé eitthvað að stríða okkur.

 

Bönker við 9. braut var endurmótaðr og minnkaður og kom þessa aðgerð vel út.

Haustið,
September/Október/Nóvember og Desember 2024

Þegar hægir á umferð kylfinga og veður leyfir er farið að undirbúa haustverkin sem eins og áður segir snúast um uppfærslu á vatnskerfi á nokkrum teigum, forgreenum og brautum. Í ár var t.d. farið af stað með að koma vatnsstútum fyrir inn á 12. braut.

Farið var í að leggja gervigras á stígsenda og stíga á nokkrum svæðum og byggja upp nýjan teig 49 milli núverandi teigasetta á 16. braut og samhliða því stækkar þá fremsti teigur (46) og fær smá endurmótun sem er kærkomin og ávallt gaman að sjá að svæðið dafna og batna milli ára.

Eitt af haustverkefnum vallarstjóra og starfsmanna er svo að koma öllum tækjum í skjól en núverandi húsakostur hýsir ekki allan okkar vélakost og golfbíla sem eru í útleigu og því það ákveðið verkefni að finna húsnæði og flytja tæki af svæðinu á hverju ári. Það sýnir sig vel að kominn er tími á að skoða alvarlega hvort það sé ekki grundvöllur til að byggja við núverandi húsakost vallarsvæðisins til að hýsa öll okkar tæki og auðvelda þannig skipulag og vinnu við viðhald tækja sem er alltaf erfiðara þegar stór hluti tækja er geymdur utan svæðis.

Kær kveðja,

Tryggvi Ölver Gunnarsson,
Vallarstjóri