Kæru félagar.
Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári sem var hið rólegasta af viðburðum enda ekkert stórmót haldið á Urriðavelli þetta ár. Vorið var kalt og sumarið undir pari en ekki hafa verið spilaðir fleiri hringir en nú í sumar eða 43.086. Má það þakka þeirri innleiðingu, að skrá sig til leiks á fyrri og seinni 9 holum vallarins. Vil ég þakka sérstaklega Tryggva Ölver Gunnarssyni vallarstjóra og hans fólki sem með mikilli vinnu, áhuga og metnaði gera svæðið allt svona glæsilegt.
Það gleður mig mjög að síðastliðið ár sem fyrr, hefur stjórnin fundaði ellefu sinnum á árinu, verið samhent í sínum störfum og þakka ég þeim, þeirra störf á árinu. Allir stjórnarmenn sem eru í kjöri sækjast eftir endurkjöri og trúi ég því að það sé merki um einhuga og samhenta stjórn.
Um eitt þúsund manns eru nú á biðlista eftir að fá að ganga í klúbbinn og algerlega óvíst er hvað við bjóðum mörgum af þeim sem sóttu um aðild að félaginu 2022.
Golfkúbbur Oddfellowa og Golfklúbburinn Oddur komu á fót nefnd sem vann að hagkvæmnisathugun á stækkun vallarins. Í því fólst að meta kostnað þess að stækka völlinn í 27 holur ásamt öðrum verkefnum sem landeigandi vildi fara í. Niðurstaða þessarar nefndar var að kostnaður við stækkun vallarins ásamt breytingum yrði 983,8 milljónir og önnur verkefni sem eru að mestu göngustígar fyrir almenning 141,7 milljónir. Þá var einnig niðurstaðan þessarar vinnu að GO væri vel til þess búinn að reka þessar viðbótar holur og greiða viðbótar leigu.
Að frumkvæði Golfklúbbsins Odds var yfirhönnuður golfvallar hönnunnarstofunnar Robert Trent Jones jr fenginn til landsins til þess að skoða verkefnið og til að kanna hvort áhugi þeirra væri til að koma að því. Frá þeim liggur fyrir tilboð að hönnun vallar sem mun standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Það hefur reynst landeigandanum, Styrktar og líknarsjóði Oddfellow erfitt að taka ákvörðun að leggja af stað í stækkun vallarins og eru engar fréttir að færa af þeim vetvangi og málið liggur því kjurt. Þetta er slæm staða og setur alla vinnu er lítur að framtíðinni í uppnám. Okkar áætlanir miðast nú eingöngu að því að bæta núverandi völl og rekstrargrundvöll hans.
Fastráðnir starfsmenn voru þeir sömu og í fyrra en heildarfjöldi vallarstarfsmanna yfir sumarmánuðina dróst saman frá fyrra ári. Í samstarfi við vallarstjóra, hefur stjórnin unnið að endurskoðun rafvæðingar og uppbyggingu innviða fyrir sláttuþjarka. En við viljum ná meiri árangri í sparnaði en reyndin hefur verið. Það gerum við með markvissari staðsettningu þeirra, ásamt því að leggja rafstrengi um allt svæðið. Því fylgir nokkur kostnaður en það er nokkur hindrun að heimtaug golfvallar svæðisins annar ekki núverandi notkun.
Hrafnhildur Guðjónsdóttir hefur leitt uppbyggingu íþróttastarfs Golfklúbbsins Odds af miklum krafti. Á miðju sumri tók Auður Skúladóttir við því starfi þegar Hrafnhildur fór í fæðingarleyfi. Á heimasíðu ársksýrslu GO má nú finna skýrslur frá barna og unglingaráði ásamt afreksnefnd og hvet ég félagsmenn að kynna sér þær. Þar eru einnig skýrslur frá öðrum starfsnefndum GO. Ásamt yfirliti yfir einherja á árinu og frá upphafi. Í meistaramóti GO voru þáttakendur 393 og fengu margir keppendur blíðaskapar veður, þó svo blása þyrfti lokahringinn af fyrir flesta flokka. Klúbbmeistari karla er Rögnvaldur Magnússon og Klúbbmeistari kvenna Hrafnhildur Guðjónsdóttir.
Ég vísa aftur í skýrslur barna og unglingaráðs og afreksnefndar um árangur keppnissveita GO á árinu.
Skráðir félagsmenn í Oddi voru 1.795 í lok ársins. Af þeim eru 1.285 með fulla félagsaðild en um 510 félagar eru með Ljúflingsaðild. En með vaxandi barnastarfi hefur yngstu aldursflokkunum fjölgað í klúbbnum. Eins og áður segir eru um tæplega eittþúsund, væntanlegir félagar á biðlista og ljóst að mjög fáir þeirra muni fá inngöngu á komandi tímabili. Þessi langi biðlisti er ekki einungis til vitnis um það góða starf sem hér er unnið heldur einnig um þann ofurvöxt sem golfíþróttin hefur verið í þessi síðustu ár. Sú þróun, að mjög stór hópur bíður þess að spila hjá okkur golfvöllinn kallar á að við aðlögum reksturinn að því.
Margir félagsmenn hafa komið til mín athugasemdum um að það séu of margir skráðir í klúbbinn. Erfitt sé að fá rástíma eða komast að á æfingasvæðum klúbbsins. Fjöldi félagsmanna hefur hins vegar lítið breyst síðustu fjögur ár, hins vegar spila félagsmenn að meðaltali meira golf en þeir gerðu áður. Og við fáum mikið af gestum
Kvennanefnd, mótanefnd og barna og unglingaráði, færi ég sérstakar þakkir fyrir þeirra störf á árinu. Í þessum nefndum varð nokkur endurnýjun án þess að nokkuð sæji á í starfi þeirra og er það til vitnis um þann góða félagsauð sem er í Golfklúbbnum Oddi.
Áframhaldandi aukning í golfíþróttinni hér á landi endurspeglaðist í aukinni aðsókn að golfvellinum og æfingasvæðið var nánast fullt þegar leið á sumarið og á álagstímum er ómögulegt að bæta við þjónustu. Á árinu var æfingasvæðið stækkað um 2-3 bása og er sú stækkun hugsuð fyrir kennslu. Nú eru það þjarkar sem slá og hreinsa æfingasvæðið og er af því mikill sparnaður en þessi framkvæmd varð dýrari en við reiknuðum með. Endurgreiðslutími þessarar framkvæmdar er þó ásættanlegur þar sem heilann starfsmann þurfi orðið til að hugsa um svæðið og loka því til að slá. Þá var líka bætt við 8-10 bílastæðum aftan við æfingasvæðið sem mikil þörf var á.
Á tímabilinu 15. maí – 15. október 2024 voru leiknir 43.086 hringir á Urriðavelli í samanburði við 34.329 hringi 2023. Erum við núna aftur komin í nýtingu á golfvellinum sem við þekkjum, um 42 þúsund golfhringi. Sú aðferð að ræsa út á fyrsta og tíunda teig núna í lok sumars heppnaðist vel og er sannarlega komin til að vera. Við munum þó ekki hafa það fyrirkomulag að vori enda færi golfvöllurinn þá strax í fulla nýtingu þegar hann væri viðkvæmastur.
Áfram var unnið að endurbótum á fremri teigum og var nýr teigur á 12. braut tekinn í notkun á miðju sumri. Er nú hægt að segja, þrjátíu og einu ári eftir stofnun klúbbsins að hann sé nú uppbyggður eins og hann var hannaður.
Það er mikilvægt að góður og öruggur rekstur sé á Golfklúbbnum Oddi. Vil ég þakka Þorvaldi Þorsteinssyni framkvæmdarstjóra kærlega fyrir árangurinn og samstarfið á árinu. GO hefur ekki haft aðgang að opinberum styrkjum til uppbyggingar, ólíkt flestum öðrum íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Og það má hrósa Garðabæ fyrir stuðning við uppbyggingu golfíþróttarinnar, lítið af þeim fjármunum sem varið hefur verið hefur þó ratað til uppbyggingar Urriðavallar. Það var fyrirferðarmikill hluti áðurnefndar hagkvæmniskýrslu hvað golfvöllurinn gæti staðið undir hárri leigu. Það verður því áfram svo, að gjaldskrá í Golfklúbbinn Odd verður hærri en í öðrum klúbbum en upphæðin sem félagsmenn greiða og endar hjá landeiganda er nú um þrettán þúsund krónur. Það er mikilvægt að Golfklúbburinn Oddur sé áfram rekinn með afgangi en alltaf er til staðar veruleg þörf til endurnýjunar búnaðar.
Verkefnin sem unnið er að núna, lúta fyrst og fremst að þeirri framtíðarsýn sem vallarstjóri vinnur eftir, við það að auka við notkun sláttuþjarka. Mest af þessari vinnu á sér stað neðanjarðar og verða félagsmenn ekki varir við hana við golfleik. Þá verður unnið að lagfæringum á einhverjum teigum og verður áfram horft til fremri teiga enda hefur umferð um þá haldið áfram að aukast.
Í samstarfi við GOF voru framkvæmdir og fjárfestingar á síðasta ári, fyrir samtals um 40 milljónir króna. Keyptir voru fjórir sláttuþjarkar þar af ein gerð sem getur slegið meira en eina sláttuhæð og hefur verið nýtt til að slá braut og röff á þrem brautum. Fjárfesting á æfingasvæðinu var um 25 milljónir en við reiknum með að hún skili sér til baka á 5 árum í lægri rekstrarkostnaði.
Nú er það orðin regla að hagnaður er af rekstri golfklúbbsins. Má það bæði rekja til fullrar skráningar félagsmanna sem standa undir 60% af heildartekjum en einnig til áframhaldandi aukins umfangs á öðrum sviðum. Framkvæmdastjórinn mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum.
Urriðavöllur er sannarlega einn besti golfvöllur landsins og Golfklúbburinn Oddur einn sá eftirsóttasti af þeim sem eru að velja sér golfklúbb. Það er stefna núverandi stjórnar að viðhalda því forskoti sem við teljum okkur hafa. Vandi fylgir vegsemd hverri og verkefni næstu stjórnar verður áfram að vinna að þróun reglna við rástímaskráningar og fylgja eftir stefnu stjórnar um aðgengi annarra en félagsmanna. Sú fjárhagsáætlun sem lögð verður fyrir síðar á fundinum gerir ráð fyrir að bætt verði við fastráðnum starfsmönnum m.a. við viðhald vallarins og þjónustu við kylfinga.
Ég vil ljúka þessari skýrslu með því að þakka starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Ég vil þakka meðstjórnendum mínum og Hlöðveri Kjartanssyni áheyrnarfulltrúa GOF fyrir samstarfið. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér í liði á árinu sem nú er að líða.
Stjórn Odds þakkar samstarfið á árinu og óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.
f.h. stjórnar GO
Kári Sölmundarson