Skýrsla mótanefndar

Vorið og í raun sumarið var ekki það vinsamlegasta hvað varðar veðurfar og enn eru aðilar sem segja að það hafi ekki komið sumar aðeins haust, meira haust og svo vetur en þrátt fyrir það tókst okkur að klára öll þau mót sem við skipulögðum með sóma þetta árið.

Mótanefndin sér um innanfélagsmót sem eru aðeins fyrir félagsmenn á meðan að klúbburinn sjálfur heldur utan um opin mót og kemur að mótum fyrirtækja. Í ár voru engin opin mót á Urriðavelli.

Völlurinn okkar skartaði sínu fegursta þrátt fyrir lítil hlýindi en með því frábæra starfsfólki sem sér um golfvöllinn okkar þá tókst þeim að gera völlinn okkar þann fegursta og besta á landinu öllu….. já já ég er örlítið hlutdræg en allir sem ég hef rætt við utan Odds eru mér sammála.

Sumarið hófst með opnunarmóti GO sem almennt er innanfélagsmót en inn í mótið laumuðust nokkrir gestir vegna stillingarvandræða á golfbox kerfinu og voru þeir aðilar boðnir velkomnir engu að síður þó þeir gætu ekki tekið við verðlaunum. Veitt voru verðlaun í höggleik og punktakeppni í karla og kvennaflokki. Í höggleik kvenna lék Auður Skúladóttir best á 86 höggum en baráttan í karlaflokki var jafnari en Davíð Arnar Þórsson og Tómas Sigurðsson léku báðir á 76 höggum en Davíð lék á færri höggum á seinni 9 og fékk því 1. sætið karlamegin í höggleik. Í punktakeppni í kvennaflokki bar sigur úr býtum Kristín Erna Guðmundsdóttir á 39 punktum og karlamegin lék manna best Rafn Magnús Jónsson og Bergþór Njáll Kárason nánst eins vel á sama punktafjölda 39 punktum en Rafn hafði betur á seinni 9 holum vallarins og fékk því fyrsta sætið.

Holukeppni Odds var vinsæl sem áður og hefst keppnin snemma sumars svo hægt sé að koma leikjum fyrir yfir sumarið með tímaannmörkum til að tryggja að það gangi upp. Þáttaka var góð og keppt er í karla- og kvennaflokki þar til uppi standa einn karl og ein kona sem mætast svo í hreinum úrslitleik. Til úrslita spiluðu Arnór Einarsson sigurvegari karlamegin og Ágústa Arna Grétarsdóttir sigurvegari kvennamegin og Ágústa hafði sigur og getur því kallað sig holumeistara Odds 2024.

 

Þann 6. júlí hófst Meistaramót Odds þar sem slegin voru öll met hvað varðar þátttöku. Heildarfjöldi þátttakenda í öllum flokkum voru 376 keppendur sem var fjölgun um 40 keppendur á milli ára. Við framkvæmd mótsins fundum við fyrir því að sumir dagar voru mjög langir og því ljóst að endurskoða þarf skipulag flokka og umgjörð til að jafna álag eftir dögum svo allir njóti betur, bæði keppendur og starfsmenn.  Veðrið spilaði svo að venju stórt hlutverk og þó vel hafi gengið að ljúka leik í flokkum sem hófu leik fyrstu keppnisdagana þá varð það niðurstaðan að stór hluti keppenda kláraði ekki leik á lokadegi og í raun hóf aldrei leik þar og úrslit eftir 3 daga réðu því úrslitum í flestum höggleiksflokkum.

Liðakeppni GO, Collab mótaröðin var að sjálfsögðu á sínum stað.  Þátttaka var mjög góð og skráðu 38 lið sig til leiks, sem er metþáttaka og frábært að sjá þá mótaröð vaxa ár frá ári. Í mótinu voru leikin ýmis afbrigði golfleiksins í samtals fimm umferðum þar sem fimmta umferðin taldi sem tvöfalt mót og bunki af stigum í boði. Fyrir loka umferðina var mikil spenna og allt gat gerst og fyrirfram ómögulegt að segja hvaða lið væri sigurstranglegast. Flestir punktar leikmanns þar sem tveir bestu töldu hjá hverju liði var annar hluti lokamótsins og síðan reyndi á allt liðið þar sem flestir punktar leikmanns liðs á holu taldi sem besta skor liðs og sem sér mót í stigagjöfinni.

Til þess að útkljá niðurstöðu í punktakeppninni þurfti að fara í 4. leikmann liðs til að fá úrslit en eitt lið rullaði upp bestu punktar liðs á holu sem gerði það að verkum að liðið stökk upp úr 12 sæti fyrir loka umferðinu í það fyrsta þar sem liðið vann tvöfaldann sigur í loka umferðinni.  Sigurvegarar 2024 voru liðið Utan vallar. Starfsmenn klúbbsins hafa verið dugleg að finna liðsmenn ef vantað hefur í liðin

 

mælum við endilega með að félagsmenn fari að heyra í vinum og kunningjum til að vera klár með lið í mótið næsta sumar.

Lokamót ársins hjá okkur er Bændaglíman og verðum við að þakka Baldri, Svavari og öðrum starfsmönnum klúbbsins sem sjá um að setja upp hinar ýmsu þrautir fyrir okkur félagsmenn að tækla og vill mótanefnd þakka þeim fyrir þessa frábæru skemmtum.

Að lokum viljum við þakka þeim frábæra hóp sem leggur sitt að mörkum við ræsingu eftirlit og dómgæslu í ýmsum mótum, þið eruð ómissandi og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs með ykkur kæru félagsmenn

 

Fh mótanefnda

Kær kveðja

Laufey Sigurðardóttir

Formaður mótanefndar.