Skýrsla kvennanefndar 2024

 

Árið 2024 hjá Oddskonum var fullt af dásamlegum samverustundum, golfi og gleði.

Í kvennanefndinni voru Árný Davíðsdóttir formaður, Guðbjörg Eva Halldórsdóttir gjaldkeri, Edda Kristín Reynis, Guðbjörg Eiríksdóttir, Helen Nielsen, Ingibjörg Baldursdóttur, Líney Sveinsdóttir og Salvör Kristín Héðinsdóttir.

Árið hófst að venju með Púttmótaröðinni þann 23. janúar og var hún með hefðbundnu sniði. Spilað var í átta skipti í Íþróttamiðstöð GKG. Mikil ánægja var með að hittast, pútta og spjalla en alls tóku 65 konur þátt.

Til stóð að halda vormót á Hólmsvelli á Suðurnesjum í lok maí en því miður þurfti að fresta því vegna veðurs.

Miðsumarsmót Oddskvenna var haldið á besta golfvelli Íslands, Urriðavelli, þann 22. júní. Golfmótið var einstaklingsmót, punktakeppni með forgjöf þar sem mikil keppni og gleði ríkti á golfvellinum. Eftir mótið áttu konur síðan saman dásamlega kvöldstund með ljúffengum mat, verðlaunaafhendingu og tilheyrandi fjöri.

Loksins rann síðan dagurinn upp þar sem veðurguðirnir voru með okkur í liði og haldið var á Hólmsvöll þann 30. júlí. Golfmótið var 4ra manna Texas Scramble mót og alls tóku þátt 78 konur. Flestar konur fóru saman í langferðabíl á Suðurnesin þar sem gleðin var allsráðandi.

Söfnun á fuglum og örnum var með hefðbundnu sniði en yfir 200 fugla-og arnarmiðum var skilað inn yfir sumarið. Á lokahófinu var Guðlaug Á. Halldórsdóttir krýnd fugladrottning Oddskvenna 2024.

Lokamót og lokahóf var síðan haldið í lok starfsársins þann 7. september og var frábær mæting í mótið en alls 95 konur voru skráðar til leiks. Um kvöldið var lokahóf með ljúffengum veitingum, verðlaunaafhendingu, söng og dansi. Ein kona náði þeirri skemmtilegu lífreynslu að fara holu í höggi, nánar tiltekið á 4.holu. Þessi viðburður þótti virkilega vel heppnaður og náðst hafði að safna miklum fjölda veglegra vinninga, en alls voru veitt um 30 verðlaun það kvöldið.

Við þökkum öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu okkur um vinninga þetta árið.

Við í kvennanefndinni viljum þakka öllu okkar dásamlega fólki í Oddinum fyrir skemmtilegt samstarf og frábæra samvinnu. Og TAKK allar Oddskonur fyrir frábært ár og þátttöku í viðburðum ársins. Við hlökkum mikið til golf ársins 2025 með ykkur. Golfvöllurinn var til fyrirmyndar og öll nutum við góðs af því hversu vel er hugsað um völlinn.

Árið var virkilega gott, og þökkum við Helen Nielsen, Ingibjörgu Baldursdóttur og Salvöru Kristínu Héðinsdóttur, fyrir gott starf síðustu ár, en þær hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í nefndinni.

Fyrir hönd kvennanefndar Golfklúbbsins Odds þökkum við kærlega fyrir okkur,
Árný Davíðsdóttir